Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 7/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 7/2022

Miðvikudaginn 15. júní 2022

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 5. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, dags. 1. desember 2021, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er X ára dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst 22. september 2021 í kjölfar tilkynningar um andlegt ofbeldi.

Í greinargerð Barnaverndar B um könnun málsins, dags. 28. nóvember 2021, kemur fram að tilkynning hafi borist barnavernd 22. september 2021 þar sem faðir hafi tilkynnt að móðir væri að beita stúlkuna andlegu ofbeldi. Faðir óttaðist um velferð stúlkunnar og taldi að móðir væri að heilaþvo dóttur sína.

Að undangenginni könnun var mál stúlkunnar tekið fyrir hjá Barnavernd B þann 1. desember 2021 og var þar tekin ákvörðun um að loka málinu þar sem könnun leiddi ekki í ljós misfellur í aðbúnaði barnsins og var ekki talin þörf á úrræðum á grundvelli barnaverndarlaga.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. janúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. janúar 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, og með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust einnig þann 21. febrúar 2022. Frekari gagnaöflun fór ekki fram.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt.

Í kæru greinir kærandi frá því að málið hafi verið ákaflega illa og hroðvirknislega unnið af Barnavernd B. Kæran og svo rannsókn barnaverndar snerist um að barnið væri undir heilaþvætti móður en það hafi gerst áður og hafi sýslumaður úrskurðað meðal annars fyrir fáeinum árum "að móðir hafi haft óeðlileg áhrif á barnið svo [það] því líki ekki við föður." Þetta hafði stjúpfaðir barnsins meira að segja sagt við kæranda í símtali á sínum tíma. Þessar upplýsingar sé hægt að finna í skjölum sýslumanns en margsinnis hafa mál á kæranda og barnsmóður hans ratað þangað og án undantekninga verið úrskurðað kæranda í hag.

Barnavernd hafi haldið meðferðarfund þann 1. desember [2021] og ákveðið að loka málinu og hafi úrskurðurinn verið rétt rúmlega þrjár línur. Kærandi kveðst hafa fengið úrskurð sendan til sín rafrænt þann 28. desember sl., heilum fjórum vikum síðar. Kærandi átelur þessar tafir og telur að um óþarfa bið hafi verið að ræða í máli þar sem tíminn skipti máli.

Við rannsókn málsins hafi barnavernd notast við mastersnema í félagsráðgjöf sem kærandi telji að geti ekki talist vera rétt þar sem neminn hafi hvorki næga menntun né reynslu til að taka viðtal við barn sem grunur sé um að sé undir heilaþvætti móður og ofurpressu á að haga sér samkvæmt vilja móður gagnvart föður gegn sínum náttúrulega eigin vilja.

Kærandi kveður samband sitt og dóttur sinnar vera byggt á sterkum grunni og aldrei nokkurn tímann hafi eitthvað slæmt gerst. Þau séu feðgin sem tali mikið og lengi saman og hún biðji kæranda nær alltaf um að fara í bíltúr sem þýðir með öðrum orðum "komdu út að kjafta." Að ræna þeim þessum stundum sé til dæmis eitthvað sem dóttir kæranda myndi aldrei samþykkja sjálfviljug. Kærandi kveðst kynnast dóttir sinni ansi vel með því að tala mikið og oft við hana en hún hafi meðal annars sagt kæranda að henni semji ekki vel við stjúpföður sinn og þau rífist oft. Þetta hafi kæranda fundist skrýtið þar sem hann hafi aldrei séð dóttur sína rífast, hvorki við hann né nokkurn annan.

Nemi í starfsþjálfun sem ekki hafi svona mál sem sérgrein í sínu námi sé bara langt frá því að vera í lagi og bara þetta atriði sé nóg til að fella eigi úrskurðinn niður. Reyndan sérfræðing þurfi í málinu með löglega sérþekkingu.

Kærandi kveður forsögu málsins vera í mjög stuttu máli þá að dóttur hans hafi verið rænt úr umgengni á meðan hún var í hans umsjá. Stúlkan hafi verið í fýlu vegna þess að hún fékk ekki rándýran bol í íþróttavöruverslun og var í framhaldinu með ótrúlegan skítakjaft að kærandi ákvað að stöðva bílinn, án þess að öskra nokkurn tímann á móti, og sneri bílnum við og sagðist ætla keyra hana til D. Hún hafi snarþagnað, en kærandi hafi aldrei áður séð hana svona né heyrt hana tala svona viðbjóðslega. Kærandi kveðst hafa ekið næsta hringtorg og þetta hafi ekki tekið meira en tíu sekúndur þangað til þau voru aftur á sömu leið og mjög nálægt áfangastað. Aðspurð sagðist dóttir hans hafa ætlað að jafna sig þegar þau voru komin að heimsækja systur kæranda örfáum mínútum síðar og allt virtist í jafnvægi en dóttir hans hringdi í millitíðinni í móður sína og hystería fór í gang sem endaði með því að vinkona móður sótti barnið að ósk móður.

Nokkrum vikum áður hafði móðirin lokkað barnið úr árlega mánaðarlöngu sumarfríi og skemmt það en barnið hafi náði að hringja í kæranda og talað við hann í 50 mínútur og hvíslaði allan tímann og vildi koma til hans. Barnið hvíslaði svo að móðir hennar heyrði ekki hvað þeim færi á milli. Dóttir kæranda sé núna í svo ótrúlega óþægilegum og óhollum aðstæðum að kærandi verði að geta treyst því að stofnanir sem eigi að vernda börn geri það með eins fagmannlegum hætti og hægt sé.

Eftir að dóttur kæranda hafi verið rænt úr umgengni frá honum hafi tekið við fimm mánaða þögn þar sem allir fjölskyldumeðlimir hennar móðurmegin voru með "block" á símanum sínum. Barnið geti þetta ekki án aðstoðar og þess vegna hafi málið farið til barnaverndar. Barnið sé í alltof spennuþrungnum aðstæðum og engin ástæða sé fyrir svona samtengdum aðgerðum. Snemma í ferlinu kveðst kærandi hafa ekið til Keflavíkur og bankað upp á og dóttir hans hafi svarað. Móðir hennar sá kæranda koma og var í símanum við dótturina í gegnum spjallforrit að fjarstýra málum. Þá hafi fósturfaðir hennar komið stuttu á eftir og verið hrokafullur í framkomu. Þetta sé dæmi um stig geðveikinnar í málinu og það þurfi hæft starfsfólk til að ráða við svona mál. Það þurfi auðvitað klínískt menntaðan atvinnumann til að ræða við allt það fólk sem sé tengt þessu máli. Svoleiðis einstaklingur hafi ekki komið að rannsókn málsins af hálfu Barnaverndar B.

Þá er einnig til meðferðar dagsektarmál hjá sýslumanni út af þessu öllu og þar er notast við ,,sérfræðing í málefnum barna" til að tala við barnið. Til samanburðar sé hjá Barnavernd B notast við mastersnema í félagsráðgjöf til að tala við barnið í máli sem sé langt yfir hennar getustigi sem félagsráðgjafarnemi. Þetta sé langt undir þeim gæðastandard sem búast megi við frá stofnun sem sérhæfir sig í að aðstoða börn. Forstöðukonan hafi fyrst ekki svarað því hvaða menntun rannsóknaraðilinn hefði.

Kærandi kveðst hafa viðrað það við forstöðukonu barnaverndar í tölvupóstsamskiptum við Barnavernd B að hann hefði áhyggjur af hlutdrægni í úrskurði, sérstaklega varðandi stjúpföður barnsins en hann sé áberandi sem aðstoðarmaður í menningarlífi B og vinni hjá Reykjanesbæ. Í tölvupóstsamskiptum við forstöðukonuna hafi hún engin viðbrögð sýnt við þessu tiltekna atriði, bara skautað yfir það orðalaust. Kærandi kveðst hafa komist að því að þau væru vinir hvors annars á Facebook. Téð forstöðukona skrifaði undir ákvörðun barnaverndar um lokun málsins sem tengist beint hagsmunum fjölskyldu stjúpföður barnsins og það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en að hún hafi tekið hagsmuni stjúpföður og eiginkonu hans fram yfir hagsmuni barnsins.

Úrskurðurinn sé ekki óhlutdrægur og það þurfi ekki langar umræður til að allir verði sammála um það. Svo skýrt sé þetta. Þetta sé líka dæmi sem nægir eitt og sér að fella úrskurðinn úr gildi og rannsaka málið á nýjan leik almennilega. Kærandi kveðst hafa skjámyndir af þessu öllu.

Þessi vinnubrögð og undanbrögð séu með öllu óásættanleg og rýra ímynd og hlutverk barnaverndar og það þarf auðvitað ekki að koma á óvart að kærandi krefjist þess að þessum úrskurði Barnaverndar B verði hnekkt og það með hraði því að alltof mikill tími hafi farið til spillis, þökk sé óstjórn og óheiðarleika forstöðukonu Barnaverndar B.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hina kærðu ákvörðun frá 1. desember 2021 um að loka barnaverndarmáli C.

Þann 22. september 2021 barst Barnavernd B tilkynning frá kæranda er varðar andlegt ofbeldi af hálfu móður barnsins sem um ræðir. Rétt sé að taka fram að skömmu áður en umrædd tilkynning barst Barnavernd B hafði barnavernd borist tvær aðrar tilkynningar. Fyrri tilkynningin var frá móður barnsins og hin síðari frá skóla barnsins en um efni þeirra vísast til fyrirliggjandi gagna.

Í tilkynningu kæranda kemur fram að móðir beiti barnið andlegu ofbeldi og að kærandi óttist um velferð þess og að móðir sé að heilaþvo dóttur sína. Þennan sama dag hafi á móttöku- og greiningarfundi hjá Barnavernd B verið tekin sú ákvörðun að hefja könnun máls á grundvelli 21. gr. barnaverndarlaga og var forsjáraðilum barnsins tilkynnt um þá ákvörðun.

Líkt og nánar verður rakið var tekin sú ákvörðun á fundinum að leita liðsinnis utanaðkomandi sérfræðings í málefnum barna til að framkvæma könnun málsins. Í kjölfarið hafi verið tekin viðtöl við kæranda, móður og barn líkt og ítarlega er rakið í greinargerð um könnun máls, dags. 28. nóvember 2021. Þá hafi verið aflað upplýsinga frá skóla barnsins sem bárust með bréfi, dags. 25. október 2021. Niðurstaða könnunar var sú að tilkynningarefni væri ekki staðfest og könnun hafi ekki leitt í ljós misfellur í aðbúnaði barns eða áhættuhegðun barns. Staðan sé sú að barnið sé að upplifa erfið samskipti við föður sinn.

Með bréfi Barnaverndar B til kæranda, dags. 28. desember 2021, var honum tilkynnt um þá ákvörðun sem er kæruefni þessa máls. Þá hafi Barnavernd B í niðurlagi bréfsins leiðbeint kæranda um rétt sinn til skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina.

Um málavexti vísast að öðru leyti til greinargerðar um könnun máls, dags. 28. nóvember 2021, og framlagðra gagna málsins.

Barnavernd B byggir á því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og ákvörðunin byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Þá sé byggt á því að málsmeðferð Barnaverndar B hafi verið í fullu samræmi við fyrirmæli barnaverndarlaga. Þannig tók Barnavernd B þá ákvörðun í kjölfar tilkynningar kæranda innan þeirra tímafresta sem um er getið í 1. mgr. 21. gr. laganna að hefja könnun á málinu. Í beinu framhaldi hafi móður verið tilkynnt um að tilkynning hefði borist og báðir foreldrar verið upplýstir um þá ákvörðun að hefja könnun á málinu, sbr. 4. mgr. sömu greinar.

Markmið könnunar málsins af hálfu Barnaverndar B hafi verið að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barnsins og meta þörf fyrir úrræði í samræmi við barnaverndarlög, enda höfðu tilkynningar borist með stuttu millibili frá báðum foreldrum sem og skóla barnsins. Hin kærða ákvörðun hafi svo verið tekin að undangenginni ítarlegri könnun á atvikum máls þar sem aflað hafi verið upplýsinga um hagi og aðbúnað barnsins frá foreldrum, barninu sjálfu og skóla barnsins. Barnavernd B telur að sú ákvörðun hafi verið málefnaleg og rétt miðað við það sem fram hafi komið í könnun málsins.

Varðandi athugasemdir í kæru við hæfi forstöðumanns barnaverndar, sé rétt að taka fram að […]. Engin önnur tengsl séu á milli forstöðumanns barnaverndar […]. Þau hafa til að mynda aldrei átt í samskiptum utan vinnutíma eða á Facebook þó að þau séu skráð sem vinir á þeim samskiptamiðli. Engar vanhæfisástæður séu því fyrir hendi í þessu máli og ekkert hafi komið fram sem gefur ástæður til að draga óhlutdrægni forstöðumannsins eða annarra starfsmanna í efa.

Rétt sé að taka fram að umræddur forstöðumaður var meðvituð um þessi tengsl. Þó að ekki væru vanhæfisaðstæður fyrir hendi, taldi hún rétt svo að að enginn vafi léki á um hlutleysi í málinu að fá utanaðkomandi sérfræðing í málefnum barna til að framkvæma könnun málsins og var E félagsráðgjafi fengin að málinu eftir ábendingu frá Barnavernd F. E hefur mikla reynslu af málaflokknum og hefur unnið fyrir F sem verktaki í mörgum málum. E framkvæmdi könnun málsins og skilaði af sér vandaðri greinargerð um könnun máls sem varð svo grundvöllur ákvörðunar barnaverndar í málinu.

Samkvæmt framansögðu telur Barnavernd B að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 og öll málsmeðferð í málinu hafi verið í samræmi við lögin. Könnun málsins gaf einfaldlega ekki tilefni til annars en að loka málinu, enda kom ekkert fram við könnun þess sem gaf tilefni til þess að beita úrræðum á grundvelli barnaverndarlaga.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan C er dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar kæranda um andlegt ofbeldi af hálfu móður stúlkunnar. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli stúlkunnar í kjölfar könnunar máls.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnavernd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum stúlkunnar og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Úrskurðarnefndin telur að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati barnaverndar að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl. Þá hafi rannsókn þess verið í samræmi við 41. gr. bvl. og að ekki hafi verið gengið lengra en þörf hafi verið við öflun gagna en efni stóðu til. Í því sambandi ber meðal annars að líta til þess að barnavernd ákvað að ræða við stúlkuna, foreldra hennar og skóla til að afla upplýsinga um aðstæður hennar og líðan. Niðurstaða þeirra viðtala gaf ekki til kynna að ástæða væri til að aðhafast eitthvað frekar í málinu.

Ekkert er fram komið í málinu sem gefur til kynna að ætla að þekking þess starfsmanns barnaverndar sem kom að könnun málsins hafi verið ábótavant eða að um vanhæfi hafi verið að ræða af hálfu forstöðumanns barnaverndar.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstða úrskurðarnefndnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Barnaverndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B, dags. 1. desember 2021, um að loka máli vegna stúlkunnar C, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum